Vista skjöl á MSOffice-sniði

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Sumir sem fara að nota Openoffice.org vilja samt halda áfram að vista skjölin sín á sama formi og þeir gerðu í MSOffice. Oftast er það gert þegar verið er að skiptast á skjölum við aðra sem ekki eru með nýjust gerðir MSOffice.

Openoffice.org vistar ekki sjálfgefið á MSOffice skjalasniðunum, svo sem .doc (Word) eða .xls (Excel). Slíkt er óheimilt við dreifingu forritanna - en er hægt að breyta því strax eftir uppsetningu, hafi viðkomandi áhuga.

Til að breyta grunnstillingum Openoffice.org er opnað eitthvert OOo forritanna; á aðalvalstikunni (efst) er farið í Tools-->Options valið, þá opnast eftirfarandi valmynd.


Stillingaglugginn fyrir skjalasnið


Glugginn er tvískiptur, með valtré til vinstri og stillingum til hægri. Undir flokknum Load/Save vinstra megin (ýta á + merkið ef hann opnast ekki) er undirflokkurinn General. Hann er valinn og ættu þá stillingarnar að birtast líkt og sýnt er hér.

Ekki ætti að breyta neinu hér nema neðstu fellilistunum. Þeir eru tveir; annar tilgreinir tegund skjals og hinn á hvaða skjalaformi sú tegund skjals ætti að vistast sjálfgefið (að öllu jöfnu). Til að fá almenna samhæfni við MSOffice forritin ætti að vera nóg að breyta eftirfarandi:

Text document --> Microsoft Word 97/200/XP
Spreadsheet --> Microsoft Excel 97/200/XP
Presentation --> Microsoft PowerPoint 97/200/XP

Mörg önnur skjala- og skráasnið eru í boði; það er alltaf möguleiki við vistun skjala að breyta um snið. Hér er einungis verið að stilla hvaða sniði er gert ráð fyrir að maður vilji venjulega vista með. Sé skipt um snið og hætta er talin á að einhverjar upplýsingar tapist þá kemur upp viðvörunargluggi. Hægt er að taka hakið úr liðnum fyrir ofan áðurnefnda fellilista, þá birtist þessi viðvörunargluggi ekki.