Uppsetning OpenOffice.org á Linux

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Linux notendur geta náð í nýjustu pakkana á Openoffice.org, en hinsvegar er mælt með að þeir noti frekar pakkastjóra (Package Manager) dreifingarinnar sinnar. Langflestar Linux-dreifingar koma með OpenOffice.org for-uppsett.

Margir pakkastjórar hafa möguleika á að setja upp staðværa möppu sem hugbúnaðarsafn (repository); þá er einfaldlega hægt að afþjappa völdum pökkum og síðari tíma uppfærslupökkum í þessa möppu og nota síðan viðmót pakkastjórans (Synaptics, Yast, Smart o.s.frv.) til uppsetningar.

Huga þarf að því að nauðsynlegt er að uppsetningapakkinn samsvari örgjörva og pakkagerð dreifingar. Gott er (en ekki nauðsynlegt) að vera búinn að setja upp Java-keyrsluumhverfi (JRE - java-x.x.x-sun eða sambærilegt) áður en farið er í uppsetninguna, sumir OOo-pakkar eru með JRE inniföldu.

Flestar Linux dreifingar:

Fara í möppuna sem uppsetningapakkanum var halað niður í og opna skipanalínu.

tar xvfz  OOo_(útgáfa-örgjörvi-dreifing-pakki).tar.gz

Síðan ætti að vera nóg að keyra skriftuna inni í möppunni sem myndast við afþjöppunina.

cd (heiti möppu)
./setup

DEB x86 uppsetning:

Fara í möppuna sem uppsetningapakkanum var halað niður í og opna skipanalínu.

tar xvfz  OOo_(útgáfa-örgjörvi-dreifing)_deb.tar.gz

Þá verður til mappa með heiti uppsetningarinnar (fyrir íslensku tilraunapakkana er það is).

cd (heiti möppu)/debs/
sudo dpkg -i *.deb

Til að setja upp tengingar við skjáborðsumhverfið sitt (KDE/GNOME/...) þarf að setja upp aukapakka úr möppunni desktop-integration sem er einu stigi neðar í möppukerfinu.

Athugið að fjarlægja fyrst þá pakka sem þið ætlið ekki að nota (t.d. KDE-pakkann ef þið notið GNOME, og öfugt) og einnig má benda á að uppsetningu þessa pakka verður að fjarlægja áður en ný útgáfa OOo er sett upp, annars geta orðið árekstrar.

cd desktop-integration
sudo dpkg -i *.deb

Athugið: Debian-afleiddar dreifingar (t.d. Ubuntu) sem ekki eru uppsettar með alvöru kerfisstjóranotanda (root) virðast setja OOo upp með þessari aðferð per notanda (per user). Það þýðir að ekki er sett upp fyrir aðra notendur á stýrikerfinu. Skoðið leiðbeiningar viðkomandi dreifingar hvernig best sé að setja upp kerfisstjóraaðgang, nú eða þá að búa til staðvært hugbúnaðarsafn (repo) fyrir pakkastjórann.

RPM x86 uppsetning:

Svipað er farið að í dreifingum með RPM-pökkum, nema að undirmappan með pökkunum heitir RPMS og aðskipunin fyrir uppsetninguna er:

sudo rpm -ivh *.rpm

Ef dreifingin styður ekki sudo-skipunina, er annað hvort að setja upp sudo-pakkann eða byrja á að skipta yfir í kerfisstjóraham:

# su
Password:
[root@localhost rpms] rpm -ivh *.rpm

Ábending: ef um enduruppsetningu eða uppfærslu er að ræða:

sudo rpm -Uvh *.rpm

Til að setja upp tengingar við skjáborðsumhverfið sitt (KDE/GNOME/...) þarf að setja upp aukapakka úr möppunni desktop-integration sem er einu stigi neðar í möppukerfinu. Í einstaka safnskrám eru þessir pakka innan um hina pakkana, t.d. ooobasisX.x-kde-integration-*.i586.rpm, og aðrir sértækir aðlögunarpakkar þá í desktop-integration; þetta á við pakka fyrir Redhat, SuSe, Mandriva og Freedesktop.org.

Athugið að fjarlægja fyrst þá pakka sem þið ætlið ekki að nota (t.d. KDE-pakkann ef þið notið GNOME, og öfugt) og einnig má benda á að uppsetningu þessa pakka verður að fjarlægja áður en ný útgáfa OOo er sett upp, annars geta orðið árekstrar.

cd desktop-integration
rpm -ivh *.rpm