Stilla inn íslenska stafsetningu

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Viðmót Openoffice.org er enn ekki þýtt á íslensku; þrátt fyrir það er búið að útbúa ýmis gögn og forrit til þess að íslenska gangi vel með þessum forritum. Ýmislegt þarf samt að gera til að stilla OOo þannig að það noti íslensku sem sjálfgefið tungumál í skjölum.


Íslenskt stafsetningarorðasafn

Íslenskt stafsetningarorðasafn fyrir Openoffice.org er hægt að fá á slóðinni http://extensions.services.openoffice.org/project/dict-is. Þetta er viðbótarpakki sem hægt er að setja upp með viðbótarstjóranum Extension Manager.

Orðasafnið er komið frá Elíasi Halldóri Ágústssyni og er hægt að nálgast það í upprunalegu formi hér.

Íslenskur orðskiptir

Ef Extension Manager er sýndur má nota hann beint, annars hala niður
Finna má íslenska orðskiptipakkann fyrir OOo3 hér: http://extensions.services.openoffice.org/project/hyph_is, hann er árangur margra áratuga vinnu manna eins og Baldurs Jónssonar hjá Íslenskri Málstöð og Magnúsar Gíslasonar á Reiknistofu Háskólans.

Ef OpenOffice.org er rétt upp sett ætti að koma upp gluggi sem gefur möguleika á að opna pakkann beint með OpenOffice.org Extension Manager. Ef ekki (t.d. ef Windows Explorer neitar að þekkja OOo) þarf að hala pakkanum niður á einhvern góðan stað, og að því loknu tvísmella á pakkann.

Orðskipting (e: hyphenation) er notuð til að skipta löngum orðum í línur með bandstriki; um þetta gilda ákveðnar reglur. Í löngum texta væri fáránlegt að ætla að gera þetta handvirkt; það eru allar líkur á að menn missi sjónar á öllum þessum bandstrikum, einkum ef átt er við textann á einhvern hátt. Sjálfvirka orðskiptingin sér um að halda utan um þetta; breytist textinn - breytist orðskiptingin eftir þörfum. Keyra ætti orðskiptirinn reglulega á allann textann til að sjá betur t.d. hvernig skiptingar á blaðsíðum koma út.

Orðskiptirinn í OpenOffice forritunum er ræstur með því að fara í Tools-->Language-->Hyphenation af aðalvalstikunni.

Stilla Openoffice.org á íslensku

Eftir ofangreindar uppsetningar ætti OpenOffice.org að vera komið með fullan stuðning við íslensku, nema auðvitað hvað viðmótið er á útlensku. En ekki er alveg öllu lokið; væntanlega vill fólk að íslenska verði sjálfgefið tungumál fyrir ný skjöl, og að íslenskar mælieiningar og tugabrotstákn séu notuð í útreikningum.

Til að breyta grunnstillingum Openoffice.org er opnað eitthvert OOo forritanna; á aðalvalstikunni (efst) er farið í Tools-->Options valið, þá opnast eftirfarandi valmynd.


Stillingagluggi með stillingum tungumáls


Glugginn er tvískiptur, með valtré til vinstri og stillingum til hægri. Undir flokknum Language settings vinstra megin (ýta á + merkið ef hann opnast ekki) er undirflokkurinn Languages. Hann er valinn og ættu þá stillingarnar að birtast líkt og sýnt er hér. Hugsanlega eru allar stillingarnar þegar orðnar eins og hér er sýnt, en þarna ætti Locale setting að vera Icelandic og Default language for documents að vera á Icelandic.

Sumir myndu líka vilja fara þarna í undirflokkinn Writing Aids og taka hakið af færslunni Check spelling as you type; það minnkar óneitanlega áreitið að hafa ekki rauðar undirstrikanir (villur) allan tímann sem unnið er í skjali. En á móti þarf þá að muna eftir að keyra stafsetningarleiðréttinguna í lokin...

Athugasemdir

  • Íslenski orðasafnspakkinn sem að ofan var nefndur er ekki bara fyrir OpenOffice.org, hann er hægt að setja upp með ýmsum öðrum forritum sem styðja aspell/hunspell. Með því að afþjappa .oxt skrána sem er í raun zip skrá er hægt að nálgast aspell/hunspell skrárnar. Við látum áhugasömum eftir um að finna góðar leiðbeiningar um hvernig það er gert, til þess þarf nokkra sérþekkingu.
  • Stafsetningarorðasafnið er ekki fullkomið; það eru takmörk fyrir því hversu mörgum orðum er hægt að fletta upp í án þess að tefja virkni forritanna. Verið er að vinna í orðstofna- og samsetningarreglum fyrir íslensku, og reyndar eru það tvö verkefni frekar en eitt; sjá http://github.com/stebbiv/OpenOffice-Spelling-is/ og https://launchpad.net/hunspell-is. Þegar þessi vinna verður komin lengra verður hægt að hafa mun fleiri orðmyndir án þess að lengja uppflettilistana að ráði.
  • Takmörkuð málfræðiyfirferð í Openoffice.org er í boði með LanguageTool viðbótinni. Áhugasamir geta lagt verkefninu lið og skráð fleiri málfræðireglur.