Skipta í OpenOffice.org

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Af hverju ætti maður að skipta yfir í OpenOffice.org hugbúnaðinn? Þar gætu legið margar ástæður að baki.


OpenOffice.org er opinn og frjáls hugbúnaður

Ástæðan sem kemur kannski fyrst upp í hugann er að OpenOffice.org er ókeypis og er hægt að ná í á netinu. En ekki er nóg að ekki þurfi að borga neitt; öllum er frjálst að nota þennan hugbúnað eins og þeir vilja. Það er nefnilega líka til hugbúnaður sem er ókeypis, en ekki til hvaða nota sem er. Frelsið er kannski ekki síst það að vera ekki lengur undir duttlungum einhvers framleiðanda eða seljanda kominn.

OpenOffice.org virðir staðla

Margir kunna vel að meta hvað OOo forritin eru stöðug og skjölin sem í þeim eru gerð ganga óaðfinnanlega á milli tölva (dálkar og myndir fara ekkert á flakk við að opna skjalið í annarri tölvu); þetta er hægt af því staðlarnir sem OOo notar eru úthugsaðir og aðgengilegir öllum. Rekist fólk á eitthvað sem ekki vinnur vel með OpenOffice.org þá eru oftast um annað af tvennu að ræða; aðgerðin/eiginleikinn er svo nýr að ekki er ennþá kominn stuðningur við hann í OOo - eða að viðkomandi aðgerðin/eiginleiki virðir ekki opinbera staðla eða að upplýsingar um það eru ekki birtar opinberlega. Þá er ekki við OOo að sakast.

Stærsta atriðið varðandi stöðlun snertir skjalastjórnun og geymslu á gögnum; fólk vill vita að eftir einhver ár verði ennþá hægt að lesa skjölin sem það hefur gert. Þar sem skráasnið OpenOffice.org er opinn staðall og öllum aðgengilegur, þá er engin hætta á að aðferðirnar við lestur og skrifun skjala týnist, hvort sem væri við náttúruhamfarir, gjaldþrot fyrirtækja eða bilanir í tölvukerfum.

OpenOffice.org er með aðgengilegan kóða

Allar upplýsingar varðandi virkni OpenOffice.org eru aðgengilegar á netinu; öllum er heimilt að nota þessar upplýsingar eins og þeim hentar. Eina sem þarf að gera er að geta heimilda og passa upp á að notendaleyfi nýju breytinganna sé samhæfanlegt leyfinu sem fyrir var.

OpenOffice.org er hannað frá grunni

OpenOffice.org er ekki bútasaumur ólíkra forrita frá mismunandi tímum; öll forritin ganga út frá sömu grunnhugmyndum og sömu stöðlum. Allar viðbætur hugbúnaðarins ganga í gegnum strangt ferli yfirlestrar hjá ólíkum aðilum þar sem metið er hvernig aðrir hlutar forritanna styðji viðkomandi atriði. Eiginleikum er aldrei bætt við bara af því þeir séu svalir, sniðugir eða markaðsvænir, heldur þurfa þeir að standast margháttaðar prófanir og kröfur um samhæfni.

OpenOffice.org er hægt að breyta

Öllum er heimilt að taka kóða úr OpenOffice.org og breyta honum eftir þörfum. Þannig verða nú oft til nýjar viðbætur fyrir OpenOffice.org, en sumir hafa gengið enn lengra og búið til alveg nýjar útgáfur af OpenOffice.org.

Þegar aðeins er um lítilsháttar breytingar að ræða er oft talað um "branding" eða fyrirtækismerkingu hugbúnaðarins, þá eru sett inn merki fyrirtækja/samtaka, einkennislitir, eigin sniðmát og stílar, gagnagrunnatengingar og þvíumlíkt, auk einhverrar sér-forritunar og texta.

Stundum er farið svo langt að hugbúnaðurinn þykir hafa kvíslast frá OOo - er í rauninni ný útgáfa byggð á OpenOffice.org. Dæmi um slíkt eru vöndlarnir StarOffice (sem var fyrirrennari OOo), Lotus Symphony, NeoOffice og RedOffice. Fyrstu tvær útgáfurnar eru aðlagaðar fyrirtækjarekstri og eru ekki ókeypis, enda er dreift með þeim ýmsum séreignahugbúnaði. NeoOffice er í raun Openoffice.org fyrir Mac OS-X stýrikerfið. RedOffice er kínverska útgáfan af OpenOffice.org, aðlöguð fyrir kínversk tákn, staðfærð og þýdd.

Þú getur breytt OpenOffice.org

Þér er fullkomlega heimilt að breyta OpenOffice.org eins og þér hentar. Til þess þarf bara hugmyndaflug - og að kynna sér hvernig hugbúnaðurinn virkar. Allar upplýsingar um það finnast á netinu (Google/AltaVista/Yahoo er vinur þinn) og er ágætur upphafsstaður til að vita meira á www.OpenOffice.org.