Open Document Format

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Open Document Format (ODF) skjalasniðið

ODF er opinn staðall fyrir rafræn skjöl sem notendur geta skipst á og unnið með. Staðallinn er ISO-vottaður og hefur verið í notkun í nokkur ár. ODF skjalasniðið byggir á XML ívafsmálinu og er þannig náskylt því kóðunarmáli sem er notað til að birta vefsíður (HTML). Openoffice.org forritin nota þessi skráasnið sjálfgefið.

Meginhluti skjalanna er hreinn texti auk afmarkaðra hluta í tvíundarkerfi (myndir o.þ.h.) sem gerir mun erfiðara um vik þeim sem ætla sér að smygla vírusum og annari óværu inn í skjölin. Að auki er einfaldara að endurheimta innihald skjals hafi skráin skemmst eitthvað, því þetta eru bara þjappaðar .zip skrár sem innihalda svo aðrar skrár í ákveðnu kerfi. Allt þetta er vel aðgengilegt öllum, birt á netinu og skráð á annan hátt, þannig að engin hætta ætti að vera á að vitneskjan um ODF týnist sökum hamfara, bilana, gjaldþrots eða annars slíks.

Ríkisstjórnir margra landa hafa gefið út yfirlýsingu um stuðning við ODF í opinberri stjórnsýslu.

Skráarendingar ODF skjala eru: .odt (textaritill), .ods (töflureiknir), .odp (glærusýning), .odg (myndvinnsla) og .odf (stærðfræðijöfnur).

Openoffice.org forritin geta einnig lesið og í langflestum tilfellum einnig skrifað önnur skjalaform, svo sem .doc, .xls og .docx frá Microsoft, auk hundruða annarra. Einu hnökrarnir er þegar einkaleyfi og faldar upplýsingar koma í veg fyrir vinnslu með slíkar skrár.

Hægt er að ná í viðbót hér fyrir flestar eldri útgáfur Microsoft Office sem gerir kleift að vinna með ODF skjöl - almennur stuðningur við slíkt kom fram með viðhaldspakka fyrir Microsoft Office 2007.

Office Open XML (OOXML)

Opinn ECMA og ISO staðall fyrir rafræn skjöl. OOXML byggir einnig á XML ívafsmálinu en bætir við ýmiskonar stuðningi við eldri lokuð skráasnið frá Microsoft. OOXML fylgdi Microsoft 2008 skrifstofuvöndlinum (Microsoft Office 2008) og er í megindráttum alfarið á vegum þess fyrirtækis. OOXML gegnir sama tilgangi og ODF, en eins og áður sagði eru hlutar hans ekki aðgengilegir öllum.

Eftir mikla baráttu náði OOXML nægilegu fylgi í kosningum á vegum ISO-staðlaráðsins til að stefnt sé að upptöku OOXML sem opins ISO staðals. Ríkisstjórnir nokkurra landa, þar á meðal Suður-Afríku, Venesúela og Indlands, hafa mótmælt kosningunni og upptöku OOXML sem ISO staðals.

Skráarendingar OOXML skjala eru: .docx (textaritill), .xlsx (töflureiknir) og .pptx/.ppsx (glærusýning).


Heimildir