Ooo á íslensku

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Hér verður fjallað um mál sem snerta íslenskun OpenOffice.org forritanna; orðabækur, stillingar, viðmótsþýðingar o.þ.h. Einnig er ætlunin að hér verði safnað saman þýðingum á helstu hugtökum sem eru notuð í OpenOffice.org forritunum til notkunar m.a. á þessum vef.

Hjálpartæki á íslensku

Viðmót Openoffice.org hefur ekki ennþá verið þýtt á íslensku, sú vinna er þó farin í gang og er hverjum sem er frjálst að taka þátt í verkefninu hérna.
Þrátt fyrir að viðmótið sé ekki ennþá komið á íslensku er búið að útbúa ýmis gögn og forrit til þess að íslenska gangi vel með þessum forritum. Útbúin hefur verið síða með leiðbeiningum um hvernig hægt er að setja upp slíkar viðbætur í Openoffice.org.

Writer ritvinnsla með stafsetningaleiðréttingu

Viðmót Openoffice.org á íslensku

Íslenskun á öllum þeim strengjum sem tilheyra nýjustu útgáfu OOfice er ekkert smáviðvik; það verður aldrei unnið af neinu viti nema með almennilegu utanumhaldi (þýðingar, prófarkalestur, gæðaeftirlit ofl.) og væntanlega einhverri aðkomu opinberra aðila.

Þýðingar á önnur tungumál hafa verið unnar á mismunandi vegu. Einstök fjölmenn málsvæði hafa getað lokið þýðingum með þáttöku sjálfboðaliða einni saman. Sumir sjálfboðaliðarnir hafa samt fengið stuðning vinnuveitanda til að stunda þýðingar í vinnutíma, eða jafnvel verið ráðnir til verksins án þess að það þó komi fram í tölfræðiupplýsingum. Í nokkrum tilfellum eru það sveitarfélög, ríkisstofnanir o.fl. sem standa á bak við þýðingarnar, og í einstaka tilfellum er það viðkomandi ríki sem stendur beint að baki verkefninu. Kostnaður við þýðingu OOo er óverulegur miðað við sparnaðinn sem næst fram við notkun OpenOffice.org.

Ef það er vilji fyrir því að taka upp notkun Openoffice.org t.d. í grunnskólum landsins, er frumskilyrði að forritin séu þýdd á íslensku. Af ofantöldu er nokkuð ljóst að íslenska ríkið þyrfti að koma að verkefninu með einhverjum hætti, það er jú nú þegar verið að spara stórar upphæðir í skólakerfinu með notkun OpenOffic.org.

Íslenskun OpenOffice.org

Það er búið að opna íslenskt þýðingarsvæði fyrir OpenOffice.org og ýmislegt í undirbúningi til að auðvelda þá vinnu sem þar fer fram. Öllum er frjálst að skrá sig og taka þátt. Nánari upplýsingar um þýðingaverkefnið eru útlistaðar á síðunni Íslenskun OpenOffice.org.

Umræður um forritaþýðingar

Nokkur samskipti eru um tölvuviðmót á íslensku og þýðingar á opnum hugbúnaði (aðallega Linux) fara fram á póstlista RGLUG (Reykjavík GNU/Linux Users Group).

Einnig er fjallað almennt um þessi mál á þessari síðu:

Á vefnum Opinn hugbúnaður - Átak um útbreiðslu opins hugbúnaðar í íslensku atvinnulífi og stjórnsýslu er safn greina tengdu þessu átaki. Undir þeim vef er vísir að opnu kvikusvæði (wiki) með ýmsum greinum um opinn hugbúnað og notkun hans, þar með talið um íslenskun á ýmsum forritum.

Orðalistar og hugtök

Síðan Þýðingar_á_hugtökum er samantekt á þeim hugtökum sem eru notuð í OpenOffice.org forritunum og til notkunar á þessum vef. Þetta verður lítillega efnisflokkaður listi en annars í belg og biðu - það eru takmörk fyrir hvað er hægt að gera með kvikukerfi eins og er notað við smíði þessa vefjar.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar: safn fagorðalista á nokkrum tungumálum.

Tölvuorðabókin: aðgangur í gegnum vef Skýrslutæknifélags Íslands.

Tölvuorðabókin er í heild sinni (ásamt fleiru) inni í safni Snöru (Forlagið o.fl.); aðgangur gegn gjaldi.

Þýðingarlisti RGLUG: wiki-síður með helstu hugtökum sem notuð eru við þýðingar á Linux viðmótum, ekki uppfært nema endrum og eins.

Open-tran opni þýðingargagnagrunnurinn: hægt er að setja upp bókamerki í flesta vafra sem gerir kleift að þýða samstundis valin orð á vefsíðum, nánar í hjálparsíðu Open-tran.

Margar fleiri hjálparsíður eru til á netinu, en tengjast þá ekki sértaklega íslenskum þýðingum.

Hugsanlega er hægt að hafa eitthvað gagn af skjali á .ods sniði (fyrir Calc) sem er geymt hér. Þetta er útdráttur af þýðingarstrengum í viðmóti KDE (mest) og GNOME (hluti) skjáborðsumhverfanna. Listinn er alls ekki tæmandi og inniheldur ekki allar mögulegar þýðingar orða. Fremst í skrána raða sér allir strengir sem hafa bil á undan, þetta eru æfingar forritara sem ekki hafa nennt að finna aðrar leiðir til að stilla af viðmótstexta. Einnig eru þarna strengir með merkjum fyrir flýtihnappa ('&' og '_') ásamt slatta af HTML merkjum sem raðast leiðinlega. Eina vitræna leiðin til að nota þetta væri að fletta upp orðum með aðstoð orðaleitarinnar í Calc.