Kvörðun vinnurýmis

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Sumir reka sig á að kvörðun skjásins þeirra er ekki nákvæm miðað við uppgefnar upplýsingar í forritum. Til dæmis að ferningur sem er stilltur á að vera 10×10 sentímetrar mælist ekki sem slíkur á skjánum þó forritið eigi að sýna 100% stærð (aðdrátt). Og að mál A4 blaðsíðu mælast ekki sem 21×29.7 sentímetrar í fullri stærð.

Eftir hverju fer stærðin ?

Nokkrir hlutir ráða því hvernig viðmótshlutir eru birtir á tölvuskjám. Augljóslega er skjárinn sjálfur eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann. Vissulega ræður skjárinn nokkru þar um; gerð hans, stærð, upplausnir sem hann ræður við, og kannski ekki síst stærð mynddíla hans (pixel size). Finna má ýmislegt um þetta hér.

Annað sem ræður í raun meiru um stærðarhlutföllin eru skjákort tölvunnar og síðan skjárekillinn sem notaður er með viðkomandi skjákorti. Þetta eru tækin sem búa til skjámyndina sjálfa.

Ekki má gleyma stýrikerfi tölvunnar; Windows, Mac, Unix, Linux, BSD, Solaris o.s.frv. Skjáreklarnir eru háðir stýrikerfinu, mis-einfalt er að stilla reklana eftir því hvaða stýrikerfi er notað.

En að lokum eru það forritin sjálf sem ákvarða endanlega birtingarform þess sem þau senda frá sér (til stýrikerfis-->skjárekils-->skjákorts-->skjásins-->notandans-->...).

Er hægt að stilla stærðirnar ?

Í raun hefur ekki ennþá verið tekinn upp svo heitið geti neinn almennur staðall til kvörðunar á skjástærðum fyrir tölvukerfi, einstaka stýrikerfi eru með vísi af slíku, en aðaláherslan verið lögð á litkvörðun/litstöðlun á stýrikerfum (ICC snið, Little-CMS ofl.).

Flest þungavigtarforrit fyrir hönnun, tölvuteikningu og umbrot styðjast við sínar eigin aðferðir til stærðarkvörðunar á sínum eigin vinnurýmum. Þar með þarf að stilla þetta sérstaklega fyrir hvert og eitt þessarra forrita.

Sjaldnast eru forrit til almennra nota á borð við skrifstofuskjalasýsl með útbúnað til að kvarða skjástærðir; látið er nægja að nálgast nokkurn vegin ásættanlegar stærðir út frá einföldum reiknireglum byggðum á algengustu skjástærðum; annað væri of flókið fyrir væntanlega notendur.

OpenOffice.org hefur grófan möguleika á að aðlaga stærð vinnurýmisins, þar er breytt ásýnd alls forritsins en ekki bara skjalsins sem er í vinnslu. Þetta ætti að duga fyrir flesta almenna notendur OOo - ef ekki, ættu viðkomandi að íhuga notkun alvöru umbrotsforrita.

Stærðarstillingar OpenOffice.org vinnurýmisins

Byrja ætti á því að opna nýtt OpenOffice.org skjal, annaðhvort Writer eða Draw. Síðustærðin ætti að vera A4 eða 21×29.7 sentímetrar. Síðan ætti að stilla aðdráttinn í skjalinu á 100%, það má gera með því að hægrismella á upplýsingastikuna neðst til hægri (það ætti að standa einhver prósentutala þar) eða fara í View-->Zoom... á aðalvalslánni efst.

Einnig er gott að teikna 10×10cm ferning á miðja síðu; til þess er notað kassateikniáhaldið á teiknistikunni (View-->Toolbars-->Drawing og valið áhald sem nefnist Rectangle). Ekki er nóg að teikna ferninginn handvirkt, það þarf að hægrismella á hann og velja Position and Size... og ganga úr skugga um að mál ferningsins séu nákvæmlega 10 sentímetrar á hæð og breidd. Það gæti þurft að taka hakið úr reitnum Keep ratio, hann festir hlutföllin milli hæðar og breiddar.

Ef einingarnar eru t.d. tommur en ekki sentímetrar þarf að fara fyrst í að breyta grunneiningunum í cm eða mm; Valið er Tools-->Options á aðalvalmyndinni, síðan vinstra megin Openoffice.org Writer-->General ef verið er í Writer en Openoffice.org Draw-->General ef verið er í Draw; þarna ætti að breyta Unit of Measurement í sentímetra, nema maður vilji frekar millímetra.

  • Þessar stillingar ættu að vera réttar ef staðfærsla stýrikerfisins (e. locale) hefur verið rétt þegar forritið var sett upp; hugsanlega þarf að ganga alla leið og breyta staðfærslu stýrikerfisins í rétt horf, en það er ekki til umfjöllunar hér.

Ekki má gleyma aðalvopninu: það þarf að vera tiltæk góð og nokkuð nákvæm reglustika, ekki of löng (styttri en styttri hlið skjásins) helst úr plasti (ekki viljum við rispa skjáinn).

Til að breyta grunnstillingum Openoffice.org er opnað eitthvert OOo forritanna; á aðalvalstikunni (efst) er farið í Tools-->Options valið, þá opnast eftirfarandi valmynd.

Stillingagluggi með stillingum viðmóts

Glugginn er tvískiptur, með valtré til vinstri og stillingum til hægri. Undir flokknum OpenOffice.org vinstra megin (ýta á + merkið ef hann opnast ekki) er undirflokkurinn View. Hann er valinn og ættu þá stillingarnar að birtast líkt og sýnt er hér.

Þarna er hópur skipana fyrir notendaviðmót, eða User Interface, við höfum áhuga á þeirri sem kallast Scaling, eða kvörðun. Með því að mæla breidd síðunnar og stilla prósentustækkun (minnka ef blaðsíða er of breið eða stækka ef hún er of mjó) breytist viðmótið um leið og smellt er á OK hnappinn. Þurft getur nokkrar atrennur til að ná þessu réttu, gott er að gera grófstillingu miðað við ferninginn en fínstilla miðað við blaðsíðubreiddina.

Þegar ásættanleg nákvæmni hefur náðst með breidd á hvoru tveggja, ætti að athuga með hæð ferningsins (skjáir undir 24" sýna varla alla hæð blaðsíðu inni í forritsviðmótinu). Sé mikill munur þar á (ferningurinn er teygður) gæti þurft að nota stillihnappa skjásins sjálfs til að teygja/þjappa skjámyndinni í hæð; dugi það ekki til eru líkur á að skjáupplausnin sé rangt tilgreind fyrir form viðkomandi skjás (t.d. venjuleg 1280×1024 upplausn (5:4) notuð á 1680×1050 Widescreen skjá (16:10). Þetta þarf að laga fyrst með stillingum á skjárekli áður en raunhæf kvörðun getur átt sér stað.