Kostnaður við þýðingu OOo

Úr OpenOffice.is
Stökkva á: flakk, leita

Hér er örlítil töluleg samantekt (tekið af http://l10n.openoffice.org/localization/ og víðar). Einnig má skoða http://pootle.sunvirtuallab.com/projects/openoffice_org/, http://pootle.sunvirtuallab.com/projects/helpcontent2/ og http://wiki.services.openoffice.org/wiki/Languages.

Samanburður við OpenOffice.org 2

Viðmót OpenOffice.org útg. 2.x var uþb. 80.000 orð (~35.000 strengir) og Hjálpin meira en 400.000 orð. OOo útgáfa 3.x inniheldur ennþá fleiri strengi/orð. Til viðbótar er einhver staðfærsluforritun (localization), þannig að þetta er ansi stór pakki með prófunum og öllu. Næsta vonlaust er að þýða allt þetta með einkaframkvæmd nokkurra sjálfboðaliða, líkt og algengt er með annan opinn hugbúnað.
Talað var um að það þurfi 4-5 manns í fullri vinnu í 6-8 mánuði til að þýða (og prófarkarlesa og prófa) OOffice 2.x. yfir á eitt tungumál, svo þýðingarnar fari að vera nothæfar. Líklega er lágmarkið ~3 ársverk til að fá nothæft viðmót á algengustu forritin ekkert ósennileg ágiskun.

Til fróðleiks um stærð verkefnisins í peningum ef það væri alfarið unnið af atvinnuþýðendum (gróf ágiskun): Algengt er að þýðingar hérlendis eru verðlagðar eftir slagafjölda (characters with spaces) þar sem eining er 1620 slög (27 línur x 60 slög á línu - A4 double spaced). Algengt verð fyrir einingu er á bilinu kr. 5000 - 7000 (fyrir hrun). Það eru að meðaltali ca. 295 orð í einingu þannig að 520.000(orð)/295*6000(meðalverð) = kr.10.576.271 + vsk.
Utanumhald, stjórnun og viðhald vegna uppfærslna bætist við þessa upphæð. [1]

Til samanburðar má nefna að norski þýðingarhópurinn var blanda af sjálfboðaliðum og atvinnuþýðendum, kostnaður féll að miklu leyti á nokkrar sveitar- og fylkisstjórnir auk einstaka fyrirtækja[2]. Heildarupphæðin vegna þýðinga OOo-1.x og OOo-2.x á norsku (100% þýðing) var í lok ársins 2007 kominn upp í 1.926.526 norskar krónur sem á gengi dagsins í dag (19,5 ISK/NOK) eru 37.567.257 íslenskar krónur. Norska útgáfan á OOo-3.0 er 100% fullþýdd.

Kínverjar (chinese traditional) fóru þá leið að stofna fyrirtæki um þýðingar og aðlögun OOo að kínversku; Red Flag sem framleiðir RedOffice. Þetta er miklu meira en bara þýðing, þarna er mikil umbreyting á viðmóti og eiginlega nýr ættbogi Openoffice.org. Þeir létu ekki þar við staðið heldur útbjuggu sína eigin Linux-dreifingu, alfarið staðfærða og þýdda sem er ókeypis fyrir alla og státar að sjálfsögðu RedOffice sem staðalbúnaði.

--Sveinn í Felli 13. maí 2009 kl. 11:28 (UTC)


Umfang við íslenskun OpenOffice.org 3

Heildarpakkinn lítur þá svona út (nýjustu tölur af <http://pootle2.sunvirtuallab.com/is/index.html>):

OO.o PO Help	þegar þýtt: 0 orð - 0%	heild: 433521 orð
OO.o PO UI 	þegar þýtt: 19625 - 21% 	heild: 	93180 orð

OpenOffice GUI er semsagt uþb. 93.000 orð og Hjálpin meira en 430.000 orð. Til viðbótar er einhver staðfærsluforritun ásamt prófarkalestri og síðan utanumhald o.þ.h.

Til að fá þýðingarnar samþykktar inn í almenna dreifingu OOo (sjálfvirk gerð uppsetningapakka og uppfærslur á tungumálapökkum) þarf að klára amk. 80% af UI-hlutanum. Fram að því verður að setja upp þróunarumhverfi OOo á nokkrum stýrikerfum og búa sjálf til þýðingarpakka til prófunar.

Ef þessu er skipt upp í áfanga, þarf að ákveða viðmið eða markhópa.

Fyrsti (lágmarks) pakkinn gæti verið svona: Klára 80% af UI, með áherslu á Writer, einfaldari hluta Calc og Draw, alla samskiptaglugga til vistunar og samskipta milli forrita og hugsanlega gera orðalista, stikkorð og fyrirsagnir í hjálpinni. Gróf yfirferð og samræming í orðanotkun. Nothæft fyrir flesta sem eru sæmilega vanir og þurfa ekki alla hjálpina þýdda, það væri hægt að leita í henni að einhverju leiti eftir íslenskum orðum.

  • Ágiskun: UI: 80%-20%= 56.000 orð; Hjálp: 2%= 8.600 orð + gróf yfirferð + samræming

Næsti áfangi (almennt nothæft): Fara með UI upp í amk. 95% (hugsanlega eru hlutar sem ekki er ástæða til að þýða; sérhæfðar gagnagrunnatengingar o.þ.h.). Klára hjálparskjölun fyrir Writer, einfaldari hluta Calc og Draw, auk almenna hluta OOo. Taka inn í þetta uppsetningaleiðbeiningar sem dreift er með tungumálapökkum. Þessi þýðing yrði vel nothæft td. í grunnskólum og til heimilisnotkunar.

  • Ágiskun: UI 20%= 19.000 orð; Hjálp: 60%= 260.000 orð + prófarkalestur + samræming og prófanir á hjálparskjölum*

*Þetta síðasta er ekki gott að gera sér hugmynd um hvað geti tekið langan tíma en er hægt ímynda sér að væri í kringum mánaðarvinna fyrir vanan mann. Á meðan hjálparskjölun hefur ekki náð ákveðnum þröskuldi þurfa tungumálahóparnir að sjá sjálfir um allar prófanir. Þetta er samt ekki hægt að gera fyrr en búið er að framkvæma fyrsta liðinn.

Þriðji áfangi (heildarþýðing): Bundnir lausir endar í þýðingu viðmóts, gaumgæfileg samræmingarvinna, hjálparskjölun kláruð og prófarkalestur tekin á heildina. Gerð íslenskra sniðmáta (forsnið - templates) og klárað allt myndefni (ef þarf). Hvort 100% markinu fyrir allt verði náð er kannski aukaatriði, en væri kostur að ná því. Þessi þýðing myndi gera fólk öruggt um að allt væri á íslensku, óvant fólk myndi aldrei lenda í ókunnuglegum frösum á ensku.

  • Ágiskun: UI 2%= 1.900 orð; Hjálp: 40%= 175.000 orð + prófarkalestur + gerð forsniða og skjámynda f. hjálparskjöl auk annars myndefnis*

*Líklega hátt á annan mánuð fyrir vanan mann. Þessi hluti er þess eðlis að þýðingarnar sjálfar verða væntanlega mun erfiðari, meira um uppflettingar og samráð um orðaval og samræmingu. --Sveinn í Felli 16. september 2009 kl. 16:49 (UTC)

Kostnaður við íslenskun OpenOffice.org 3

Hugsanlega verður hægt að vinna stóran hluta af viðmótsþýðingunum með framlagi sjálfboðaliða. Sumir eru þeirrar skoðunar að þetta verði eiginlega ekki gerlegt nema með alvöru átaki þ.e. fólki sem ráðið yrði í vinnu við þýðingarnar. Verði það raunin, færi best á því að sjálfboðaliðasamfélagið fái sitt að segja um þýðingarnar, taki þátt í yfirlestri og samræmingu. Slíkt gæti komið í veg fyrir að þetta verði framkvæmt af lokuðum hóp sem komi með stirðar þýðingar sem enginn nennir að nota.

Verið er að vinna að kostnaðaráætlun fyrir þýðingu OOo á íslensku samkvæmt ofangreindri áfangaskiptingu. Áhugasamir um þetta verkefni geta m.a. haft samband við undirritaðan.

--Sveinn í Felli 16. september 2009 kl. 16:49 (UTC)