Íslenskun OpenOffice.org

Úr OpenOffice.is
Útgáfa frá 9. desember 2014 kl. 11:36 eftir Sveinn í Felli (Spjall | framlög) Útgáfa frá 9. desember 2014 kl. 11:36 eftir Sveinn í Felli (Spjall | framlög)

(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Stökkva á: flakk, leita

- Verndun íslenskrar tungu: "Oft var þörf en nú er það algjört möst!" - Megas -

Þessi síða er í endurvinnslu!!

Það er búið að opna íslenskt þýðingarsvæði fyrir OpenOffice.org og ýmislegt í undirbúningi til að auðvelda þá vinnu sem þar fer fram. Á Pootle-svæðinu er hægt að þýða flest það sem máli skiptir í OpenOffice.org, ekki er þó víst að þarna séu allar skrár sem þarf að laga/þýða, má þar nefna að sum þýðingateymi nota ýmsar skriftur sem höndla verður með eftir öðrum leiðum.

Verkfæri

Áhöldin sem til þarf (fleiri hugmyndir vel þegnar):

 # Openoffice.is lén +
 # Kvikuvefur með stuðningsskjölum +
 # Póstlisti +
 # Svæði til vefþýðinga +
 # SVN/CVS/Git-aðgangur *
 # Þýðingarminni +*
 # Hópur véla með OOo þróunaruppsetningu +
 # Sértæk stuðningsskjölun fyrir þýðendur *
 
(+=komið - *=í vinnslu - **=á hugmyndastigi)

Ábendingar eru vel þegnar, þetta er flest nýfarið í gang. Senda má tölvupóst á eftirfarandi aðila:

 • Sveinn í Felli <sv1 hjá fellsnet púnktur is>
 • Kristján Bjarni Guðmundsson <kristjanbjarni hjá gmail púnktur com>
 • Björgvin Ragnarsson <nifgraup hjá gmail púnktur com>

Skráning

Öllum er frjálst að skrá sig og taka þátt. Skráning fer fram á þýðingavefnum http://pootle.services.openoffice.org/accounts/register/. Fyrst eru gefnar upp nauðsynlegar upplýsingar fyrir skráningu, svo sem notandanafn og lykilorð sem maður vill nota. Síðan kemur staðfesting í tölvupósti, smellt er á slóð sem í póstinum er og vefsíða ætti að opnast þar sem hægt er að fara í stillingar notandans. Þar ætti að merkja við íslensku sem þýðingarmál og helst bæði viðmót (OO.o PO UI) og hjálp (OO.o PO Help) í flokkunum sem maður vill fá að þýða.

Ekki er skilyrði að þýðendur séu skráðir sem notendur á þennan kvikuvef (openoffice.is), en er nauðsynlegt ef viðkomandi vilja setja hér inn efni eða breyta. Skráning á kvikuna er hér efst til hægri á síðunni. Gott væri ef notað er sama notandanafn á báðum vefjunum.

Nauðsynlegt er að fólk skrái sig líka á Openoffice.is póstlistann, þannig að einfalt sé að koma skilaboðum til þeirra sem eru að þýða OOo. Póstlistinn er líka fyrir þá sem vilja fylgjast með og eiga samskipti við þá sem eru að setja inn efni hér á kvikuvefinn.

Þýðing skráa

Þýðing skráa fer fram á vefnum http://pootle.services.openoffice.org/is/. Þetta er vefur byggður ofan á Pootle-þýðingahugbúnaðinn, ekki ósvipað Rosetta hugbúnaðnum á Launchpad vefnum. Hægt er að nota velflestar tegundir vefskoðara. Innskráðir notendur geta farið á breytingasíðuna sína og valið íslensku sem viðmótstungumál.

Pootle-vefurinn við flakk á milli skráa
Pootle-vefurinn með PO-skrá opna


Sett hefur verið upp hjálparsíða með ábendingum um hvar viðkomandi þýðingar birtist í viðmóti OOo, hægt er að hafa hana til hliðsjónar (t.d. í nýjum glugga) þegar verið er að skoða möppulistann á Pootle-svæðinu. Síðan heitir Pootle-UI-Íslenska, gott væri ef þýðendur færðu inn í aftasta dálkinn ef þeir uppgötva nýja hluti sem ekki eru fyrir.

Á Pootle-svæðinu er hægt að fletta í gegnum möppur og þýðingarskrár og skoða; sé notandinn skráður inn birtast fleiri möguleikar. Sé þýðingarskrá opin, er músarbendli haldið yfir þýðingastreng og birtist þá Breyta/Edit-skipun við enda línunnar.

Sé smellt á Breyta/Edit opnast gluggi á síðunni með ýmsum smágluggum og skipunum. Flest af þessu skýrir sig sjálft, Afrita/Copy afritar til dæmis upprunalega (enska) strenginn yfir í þýðingarreitinn - gott þegar um sérnöfn er að ræða eða mikið af breytum og sniðtáknum í línunni.

 Breytur og sniðtákn eru merki sem sett eru inn í texta og er skipt út fyrir 
 eitthvað annað (nafn forrits, flýtilyklar, fjöldi blaðsíðna o.þ.h.). 
 Gæta þarf að skemma ekki þessi merki eða eyða þeim út, annars er hætta á að 
 þýðingunni sé hafnað. Aftur á móti þarf að íhuga vel HVAR í íslenska textanum 
 þau eigi að koma fyrir (ekki herma alltaf eftir orðaröð í ensku!) - stundum 
 birtast leiðbeiningar með þýðingastrengnum og stundum sést þetta af samhengi orðanna.
Pootle-þýðingaglugginn

Hægt er að senda inn þýðingu með því að smella á Staðfesta/Submit, eins er hægt að gera tillögur með Stinga uppá/Suggestion. Þarna birtast einnig tillögur sem aðrir hafa gert, þá getur maður samþykkt þær eða hafnað (grænt hak eða rautt X).

Ekki má gleyma að hægt er að senda inn "loðnar" þýðingar (Óskýr/Fuzzy); það er þegar þýðingin er ekki tilbúin eða að maður er ekki viss um eitthvað sem betur mætti fara. Loðnar/óskýrar þýðingar hafa þann kost umfram uppástungur, að þær sjást á yfirlitssíðum án þess að fara þurfi inn í þýðingastrenginn (opna hann með "Breyta/Edit").

Athugasemdareiturinn fyrir skilaboð frá þýðanda er notaður undir leiðbeiningar og athugasemdir fyrir þessa tilteknu þýðingu. Ekki er útilokað að fólk hafi mismunandi skoðanir á einstökum hugtökum eða þýðingum; þessi reitur ekki vettvangur fyrir skoðanaskipti af því tagi. Slíkt er best að útkljá á póstlista íslenska þýðingarverkefnisins.

Með því að nota þetta vefviðmót er hægt að þýða flest það sem máli skiptir í OpenOffice.org forritafjölskyldunni.

Flýtilyklar eru tákn fyrir lyklaborðshnappa sem hægt er að nota ásamt "breytilyklum" á borð við <Ctrl> og <Alt> til að setja í gang skipun eða velja hnapp í viðmóti. Flýtilyklar eru undirstrikaðir þegar þeir birtast í viðmótinu. Þeir eru mikið notaðir af afkastamiklu fólki sem vant er að nota lyklaborð til flestra hluta, en einnig eru þeir mikilvægur hluti aðgengismála fatlaðra hvað varðar tölvunotkun.

Í þýðingarskrám OOo er táknið fyrir flýtilykil ~ (tilda) sem kemur á undan stafnum sem verður virkur sem flýtilykill.

 • Ef því væri við komið, þá væri best ef sami flýtilykill væri alltaf notaður fyrir sömu skipun - en það er ekki alltaf hægt.
 • Í hverri valmynd eða glugga getur aðeins einn stafur verið flýtilykill fyrir hvert atriði - annars verða árekstrar.
 • Ekki er nauðsynlegt að upphafstafur eða hástafur sé flýtilykill.
 • Með því að skoða næstu þýðingarstrengi á undan og eftir og nota aðra stafi sem flýtilykla er hægt að koma í veg fyrir marga árekstra.
 • Verði árekstur, sér OOo um að úthluta næsta lausa staf sem flýtilykli; stundum virkar þetta vel en stundum ekki.
 • Eina leiðin til að útiloka árekstra er að vera með OOo-forritin opin og skoða hvar þýðingastrengurinn lendir og í hvaða samhengi; hvaða aðrir flýtilyklar séu í næsta nágrenni...

Þýðendum er bent á að setja vafaatriði og algeng hugtök inn á síðuna Þýðingar_á_hugtökum. Ýmsar ábendingar varðandi verklag og gæðakröfur þýðinga er hægt að skoða á síðunni Íslenskar hugbúnaðarþýðingar.

Forrit

Vefþýðingar geta hinsvegar verið nokkuð takmarkandi, leit að hugtökum í mörgum skrám og fjöldaútskiptingar eru aðgerðir sem ekki er boðið upp á að öllu jöfnu. Afkastameiri þýðingar eru gerðar með öllu þróaðri áhöldum.

Hægt er að hala niður PO-þýðingaskrám OOo af Pootle-svæðinu; stökum skrám, öllum skrám í tiltekinni möppu, eða öllum þýðingaskránum á einu bretti. Niðurhalið er í ZIP-safnskrá sem þarf að afþjappa skipulega á góðan stað á harða disknum sínum. ATH: niðurhal ZIP-safnskráa er litið hornauga af mörgum vírusvarnarforritum.

Lang-algengast er að þýðingaskrár séu á svokölluðu PO-sniði og búnar til með svokölluðum GNU/gettext tólum. Þetta eru textaskrár uppsettar eftir ákveðnum reglum svo að forrit geti lesið þær rétt. Hægt er að þýða stakar línur í venjulegum textaritli og senda skrána síðan inn með Hlaða inn/Upload möguleikanum.

Þegar unnið er með PO-skrár eru yfirleytt notuð forrit sem hafa verið aðlöguð slíkri vinnslu eða verið sérskrifuð til slíks. Sem dæmi má taka PoEdit eða Emacs (með sérstökum viðbótum), aftur á móti eru Kbabel og arftakinn Lokalize með öflugu “þýðingarminni” sem kemur með uppástungur og samanburð við eldri þýðingar. Það mætti líka minnast á Virtaal forritið til slíks brúks, rétt eins og PoEdit er það fjölkerfa forrit sem keyrir á velflestum stýrikerfum. Eins eru til mjög öflug forrit fyrir atvinnumenn í þýðingum, þau eru hinsvegar oftast ekki ókeypis. OmegaT er eitt slíkt sem er frjálst og öllum opið, en er reyndar ekki sérstaklega hannað til forritaþýðinga.

PO-þýðingaskrár

Innihald PO-skráa er á stöðluðu sniði, efst er haus með upplýsingum um forrit, útgáfuupplýsingar, tungumál, þýðendur og fleira. Þar fyrir neðan koma þýðingastrengirnir sjálfir.

 #: ../cut-n-paste-code/libegg/eggdesktopfile.c:958
 #, c-format
 #, fuzzy
 msgid "Starting %s"
 msgstr "Ræsi %s"

Aldrei ætti að eiga neitt við strengi á borð við þessa tvo efstu, þetta eru upplýsingar fyrir þau tól sem búa svo til endanlegu þýðingaskrárnar. Næsti strengur merkir að þýðingin er "loðin", annað hvort ókláruð eða ósamþykkt. Þessa línu má fjarlægja ef þýðingin telst tilbúin. Frumtextinn er innan gæsalappa á eftir msgid og þýðingar koma á eftir msgstr. Breytutáknið "%s" verður að vera í þýðingunni; það stendur fyrir nafn á forriti/tæki eða öðru því sem verið er að ræsa í það skiptið.

Margt fleira þarf að athuga þegar unnið er beint með PO-þýðingaskrár, hugsanlega verður slíkt tekið saman á sérstaka síðu.

Forgangur þýðinga

Til að byrja með verður mest áhersla lögð á þýðingu algengustu forritsviðmótanna (application modules), þetta er það sem sýnilegast er í byrjun. Raunar má bæta við þetta ýmsum kjarnaeiningum sem forritin nota öll.

Þegar búið verður að þýða 80% af viðmótinu verður hægt að fara fram á sjálfvirka framleiðslu á uppsetningarpökkum fyrir íslensku.

Eftirfarandi eru aðalviðmótseiningarnar (http://pootle.services.openoffice.org/is/openoffice_org/):

 • sc = Calc
 • sw = Writer
 • sd = Draw / Impress
 • dbaccess = Base

Við þetta má bæta officecfg, svx, sfx2 sem innihalda ýmis algeng samskiptaskilaboð.

Sett hefur verið upp hjálparsíða með ábendingum um hvar viðkomandi þýðingar birtist í viðmóti OOo, hægt er að hafa hana til hliðsjónar (t.d. í nýjum glugga) þegar verið er að skoða möppulistann á Pootle-svæðinu. Síðan heitir Pootle-UI-Íslenska, gott væri ef þýðendur færðu inn í aftasta dálkinn ef þeir uppgötva nýja hluti sem ekki eru fyrir.

Prófanir

Kristján Bjarni Guðmundsson <kristjanbjarni hjá gmail púnktur com> er að dunda við að setja upp OOo-compile þróunarumhverfi þannig að hægt sé að prófa þýðingar og rúlla út uppsetningarpökkum fyrir aðra að prófa, hann er byrjaður að setja upp umhverfi í Windows og ætlar einnig að prófa Ubuntu.

Það mun örugglega ekki veita af amk 1-2 aðilum í viðbót sem geta gert þetta líka (á annarri linux dreifingu og svo Mac).

Hægt er að nálgast tilraunapakka með íslenskuðum útgáfum Openoffice.org á svæðinu http://openoffice.is/files/. Það ætti ekki að þurfa að taka það fram að hér er um tilraunaútgáfur að ræða, engin leið er til að ábyrgast að pakkarnir setji sig rétt upp og virki. Það er hvers og eins að ráða fram úr þeim vandamálum sem upp gætu komið - en gaman væri ef sem flestir gætu prófað pakkana og skrifað niður punkta um reynslu sína og sent inn á póstlistann.

Hérna er svo síða með niðurstöðum prófana á þessum tilraunapökkum: Prófanir OOo-is

Stuðningsvefir

Reynt verður að setja flest sem að gagni geti komið hér inn á þennan vef. Gott er að skoða upplýsingar um orðalista og hugtök á síðunni Ooo á íslensku.

Þýðendum er bent á að setja vafaatriði og algeng hugtök inn á síðuna Þýðingar_á_hugtökum.

Lítil samantekt um kostnað við þýðingu OOo er svo hér.