Íslenskun OpenOffice.org

Úr OpenOffice.is
Útgáfa frá 28. ágúst 2009 kl. 12:00 eftir Sveinn í Felli (Spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2009 kl. 12:00 eftir Sveinn í Felli (Spjall | framlög) (Ný síða: Flokkur:Íslenska Það er búið að opna [http://pootle2.sunvirtuallab.com/is/index.html íslenskt þýðingarsvæði] fyrir OpenOffice.org og ýmislegt í undirbúningi til að a...)

(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Stökkva á: flakk, leita


Það er búið að opna íslenskt þýðingarsvæði fyrir OpenOffice.org og ýmislegt í undirbúningi til að auðvelda þá vinnu sem þar fer fram. Á Pootle-svæðinu er hægt að þýða flest það sem máli skiptir í OpenOffice.org, ekki er þó víst að þarna séu allar skrár sem þarf að laga/þýða, eitthvað ætti að vera af .jar og .sdf skrám í viðbót sem höndla verður eftir öðrum leiðum.

Verkfæri

Áhöldin sem til þarf (fleiri hugmyndir vel þegnar):

 # Openoffice.is lén+
 # Kvikuvefur með stuðningsskjölum+
 # Póstlisti*
 # Svæði til vefþýðinga+
 # SVN-aðgangur*
 # Þýðingarminni**
 # Hópur véla með OOo þróunaruppsetningu*
 # Sértæk stuðningsskjölun fyrir þýðendur**
 
(+=komið - *=í vinnslu - **=á hugmyndastigi)

Ábendingar eru vel þegnar, þetta er flest nýfarið í gang. Senda má tölvupóst á eftirfarandi aðila:

  • Sveinn í Felli <sveinki hjá nett púnktur is>
  • Kristján Bjarni Guðmundsson <kristjanbjarni hjá gmail púnktur com>

Skráning

Öllum er frjálst að skrá sig og taka þátt. Skráning fer fram á þýðingavefnum http://pootle2.sunvirtuallab.com/register.html. Fyrst eru gefnar upp nauðsynlegar upplýsingar fyrir skráningu, svo sem notandanafn og lykilorð sem maður vill nota. Síðan kemur staðfesting í tölvupósti, smellt er á slóð sem í póstinum er og vefsíða ætti að opnast þar sem hægt er að fara í stillingar notandans. Þar ætti að merkja við íslensku sem þýðingarmál og helst bæði viðmót (OO.o PO UI) og hjálp (OO.o PO Help) í flokkunum sem maður vill fá að þýða.

Kostur er ef fólk skráir sig líka sem notendur á þessum vef (openoffice.is) líka. Það er gert hér efst til hægri á síðunni. Gott væri ef notað er sama notandanafn á báðum vefjunum. Verið er að vinna í uppsetningu póstlista fyrir þýðingavinnuna (ágústlok 2009), helst þannig að nægilegt sé að vera skráður notandi á openoffice.is til að vera með á listanum. Vonandi kemst hann í gagnið innan skamms.

Þýðing skráa

Þýðing skráa fer fram á vefnum http://pootle2.sunvirtuallab.com/is/index.html. Þetta er vefur byggður ofan á Pootle-þýðingahugbúnaðinn, ekki ósvipað Rosetta hugbúnaðnum á Launchpad vefnum. Hægt er að nota velflestar tegundir vefskoðara.

Þarna er hægt að fletta í gegnum möppur og þýðingarskrár og skoða; sé notandinn skráður inn birtast fleiri möguleikar. Sé þýðingarskrá opin, er músarbendli haldið yfir þýðingastreng og birtist þá Edit-skipun við enda línunnar.

Sé smellt á Edit opnast gluggi á síðunni með ýmsum smágluggum og skipunum. Flest af þessu skýrir sig sjálft, Copy afritar til dæmis upprunalega (enska) strenginn yfir í þýðingarreitinn - gott þegar um sérnöfn er að ræða eða mikið af breytum og sniðtáknum í línunni.

 Breytur og sniðtákn eru merki sem sett eru inn í texta og er skipt út fyrir 
 eitthvað annað (nafn forrits, flýtilyklar, fjöldi blaðsíðna o.þ.h.). 
 Gæta þarf að skemma ekki þessi merki eða eyða þeim út, annars er hætta á að 
 þýðingunni sé hafnað. Aftur á móti þarf að íhuga vel HVAR í íslenska textanum 
 þau eigi að koma fyrir (ekki herma alltaf eftir orðaröð í ensku!) - stundum 
 birtast leiðbeiningar með þýðingastrengnum og stundum sést þetta af samhengi orðanna.

Hægt er að senda inn þýðingu með því að smella á Submit, eins er hægt að gera tillögur með Suggestion Þarna birtast einnig tillögur sem aðrir hafa gert, þá getur maður samþykkt þær eða hafnað (grænt hak eða rautt X). Ekki má gleyma að hægt er að senda inn "loðnar" þýðingar (Fuzzy); það er þegar þýðingin er ekki tilbúin eða að maður er ekki viss um etthvað sem betur mætti fara.

Með því að nota þetta vefviðmót er hægt að þýða flest það sem máli skiptir í OpenOffice.org forritafjölskyldunni.

Forrit

Vefþýðingar geta hinsvegar verið nokkuð takmarkandi, leit að hugtökum í mörgum skrám og fjöldaútskiptingar eru aðgerðir sem ekki er boðið upp á að öllu jöfnu. Afkastameiri þýðingar eru gerðar með öllu þróaðri áhöldum.

Hægt er að hala niður PO-þýðingaskrám OOo af Pootle-svæðinu; stökum skrám, öllum skrám í tiltekinni möppu, eða öllum þýðingaskránum á einu bretti. Niðurhalið er í ZIP-safnskrá sem þarf að afþjappa skipulega á góðan stað á harða disknum sínum. ATH: niðurhal ZIP-safnskráa er litið hornauga af mörgum vírusvarnarforritum.

Lang-algengast er að þýðingaskrár séu á svokölluðu PO-sniði og búnar til með svokölluðum GNU/gettext tólum. Þetta eru textaskrár uppsettar eftir ákveðnum reglum svo að forrit geti lesið þær rétt. Hægt er að þýða stakar línur í venjulegum textaritli og senda skrána síðan inn með Upload möguleikanum.

Þegar unnið er með PO-skrár eru yfirleytt notuð forrit sem hafa verið aðlöguð slíkri vinnslu eða verið sérskrifuð til slíks. Sem dæmi má taka PoEdit eða Emacs (með sérstökum viðbótum), aftur á móti eru Kbabel og arftakinn Lokalize með öflugu “þýðingarminni” sem kemur með uppástungur og samanburð við eldri þýðingar. Eins eru til mjög öflug forrit fyrir atvinnumenn í þýðingum, þau eru hinsvegar oftast ekki ókeypis.

PO-þýðingaskrár

Innihald PO-skráa er á stöðluðu sniði, efst er haus með upplýsingum um forrit, útgáfuupplýsingar, tungumál, þýðendur og fleira. Þar fyrir neðan koma þýðingastrengirnir sjálfir.

 #: ../cut-n-paste-code/libegg/eggdesktopfile.c:958
 #, c-format
 #, fuzzy
 msgid "Starting %s"
 msgstr "Ræsi %s"

Aldrei ætti að eiga neitt við strengi á borð við þessa tvo efstu, þetta eru upplýsingar fyrir þau tól sem búa svo til endanlegu þýðingaskrárnar. Næsti strengur merkir að þýðingin er "loðin", annað hvort ókláruð eða ósamþykkt. Þessa línu má fjarlægja ef þýðingin telst tilbúin. Frumtextinn er innan gæsalappa á eftir msgid og þýðingar koma á eftir msgstr.

Margt fleira þarf að athuga þegar unnið er beint með PO-þýðingaskrár, hugsanlega verður slíkt tekið saman á sérstaka síðu.

Prófanir

Kristján Bjarni Guðmundsson <kristjanbjarni hjá gmail púnktur com> er að dunda við að setja upp OOo-compile þróunarumhverfi þannig að hægt sé að prófa þýðingar og rúlla út uppsetningarpökkum fyrir aðra að prófa, hann er byrjaður að setja upp umhverfi í Windows og ætlar að prófa Ubuntu. Það mun örugglega ekki veita af amk 1-2 aðilum í viðbót sem geta gert þetta líka (á annarri linux dreifingu og svo Mac).

Stuðningsvefir

Reynt verður að setja flest sem að gagni geti komið hér inn á þennan vef. Gott er að skoða upplýsingar um orðalista og hugtök á síðunni Ooo á íslensku.